Móðir forsetans útskrifuð af sjúkrahúsi

Luis Rubiales.
Luis Rubiales. AFP/RFEF

Ángeles Béjar, móðir Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi eftir að hafa verið lögð inn í gær.

Béjar var á þriðja degi hungurverkfalls í kirkju í bænum Motril á suðurströnd Spánar vegna þess sem hún kallar ósanngjarna meðferð í garð sonar síns.

Ru­bia­les hef­ur verið harðlega gagn­rýnd­ur vegna hegðunar sinn­ar eft­ir að Spánn varð heims­meist­ari kvenna fyrr í mánuðinum, en hann kyssti leikmanninn Jennifer Hermoso á munn­inn án hennar samþykk­is og greip um klof sitt í fagnaðarlát­un­um.

„Henni leið ekki vel vegna hitans og alls annars. Fætur hennar höfðu bólgnað og hún var mjög þreytt. Hún var einnig orðin mjög kvíðin,“ sagði prestur sem starfar í kirkjunni, Antonio að nafni, í samtali við spænska fjölmiðla í gær.

Spænski miðillinn EFE greindi frá því í morgun að Béjar hafi brugðist vel við meðhöndlun á sjúkrahúsi áður en hún var útskrifuð, þar sem sonur hennar Rubiales fylgdi henni.

Ekki hefur komið fram hvort Béjar hyggist halda hungurverkfallinu áfram en áður hafði hún látið hafa eftir sér að hún væri reiðubúin að deyja fyrir málstaðinn og myndi vera í verkfalli dag og nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert