Tilfinningin er ólýsanleg

Viktor Karl Einarsson reynir skot að marki Struga í kvöld.
Viktor Karl Einarsson reynir skot að marki Struga í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Karl Einarsson átti frábæran leik fyrir Breiðablik þegar liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Viktor Karl var tilfinningaríkur þegar mbl.is náði tali af honum eftir leik.

„Tilfinningin er ólýsanleg, rosalega gaman og við erum í skýjunum með þetta. Við erum búnir að vinna hart að þessu og þetta er búin að vera löng vegferð þannig að það er hrikalega ljúft að vera komnir í riðlakeppnina.”

Viktor Karl átti líklega sinn besta leik á tímabilinu og skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu. Var einhver sérstök ástæða fyrir því að þú toppar í þessum leik?

„Ég undirbjó mig eins fyrir þennan leik og alla aðra leiki en maður fann fyrir öllum fiðrildunum í maganum og maður var bara tilbúinn í þetta þannig að þegar dómarinn flautaði leikinn á þá setti maður allt sitt í þennan leik og skildi allt eftir á vellinum.”

Leikmenn Breiðabliks virtust mjög ferskir í upphafi leiks og ekki var að sjá að þeir væru stressaðir I leiknum. Var eitthvað sérstakt við undirbúninginn á leiknum sem gerði það að verkum að menn mættu svona einbeittir í leikinn?

„Það voru allir tilbúnir og maður sá það í augunum á liðsfélögunum að við ætluðum okkur þetta og það voru allir mjög tilbúnir. Við gíruðum okkur bara venjulega upp í þennan leik en við fundum allir að það var eitthvað meira undir og við fundum þennan auka kraft sem skilaði okkur þessu árangri.”

Verður ekkert erfitt að halda sér í formi í vetur þegar þið verðið bara að spila í riðlakeppninni?

„Ég treysti Óskari og öðru starfsfólki 100% fyrir því að halda okkur í góðu formi og gera æfingarnar góðar. Síðan munum við eflaust spila einhverja æfingaleiki þannig að ég held að þetta verði allt í lagi.”

Næsti leikur er FH á sunnudag. Verður ekkert erfitt að setja fókus á þann leik eftir þennan árangur?

„Það gæti orðið flókið að ná sér niður eftir þennan leik en það er bara hluti af þessu. Núna er það deildin sem skiptir máli og við þurfum að reyna ná öðru sætinu að minnsta kosti og það er næsta markmið hjá okkur,” sagði Viktor Karl í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert