Lionel Messi heldur áfram að spila frábærlega fyrir Inter Miami en argentínski snillingurinn lagði upp tvö mörk í 3:1-sigri liðsins á Los Angeles FC á útivelli í bandarísku MLS-deildinni í knattspyrnu í nótt.
Facundo Farias kom Inter Miami í forystu á 14. mínútu áður en Jordi Alba tvöfaldaði forskotið snemma í síðari hálfleik eftir undirbúning Messi.
Þriðja mark liðsins kom svo sjö mínútum fyrir leikslok þegar Leonardo Campana skoraði eftir sendingu Messi.
Á 90. mínútu skoraði Los Angeles svo sárabótamark en tveggja marka sigur Inter Miami var niðurstaðan.
Inter Miami er enn næstneðst í Austurdeild MLS-deildarinnar en hefur unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli eftir komu Messi.
Hann hefur nú skorað ellefu mörk og lagt upp fjögur í ellefu leikjum í öllum keppnum frá því hann kom frá París SG fyrr í sumar.