Þjálfari heimsmeistaranna rekinn

Jorge Vilda kyssir heimsmeistarabikarinn.
Jorge Vilda kyssir heimsmeistarabikarinn. AFP/Franck Fife

Jorge Vilda, sem gerði kvennalið Spánar að heimsmeistara í síðasta mánuði, hefur verið rekinn frá störfum. 

Vilda hefur verið náinn Luis Rubiales, forseta knattspyrnusambandsins, sem hefur verið harðlega gagnrýndur víða fyrir hegðun sína eftir að Spánn varð heimsmeistari.

Rubiales var úrskurðaður í 90 daga bann af FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu, á dögunum fyrir að m.a. kyssa leikmenn í óþökk og grípa um klof sitt eftir leik.

Hann hefur neitað að segja upp störfum hjá sambandinu, þrátt fyrir að nánast allt þjálfarateymi Vilda hafi sagt upp og 81 leikmaður neitað að spila fyrir landsliðið.

Þrátt fyrir það ætlaði Vilda að halda áfram að stýra spænska liðinu, en honum hefur nú verið vikið frá störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert