Luis Rubiales, forseti spænska knattspyrnusambandsins, gæti verið á leið í allt að fjögurra ára fangelsi, verði hann fundinn sekur um kynferðislega áreitni í garð Jenni Hermoso, leikmanns spænska kvennalandsliðsins.
Það er Guardian sem greinir frá þessu en í gær bárust fréttir af því að Hermoso hefði lagt fram formlega kvörtun vegna forsetans.
Það hefur gustað hressilega um Rubiales eftir hegðun hans á úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Sydney í Ástralíu þar sem Spánn vann 1:0-sigur gegn Englandi.
Á verðlaunahendingunni kyssti Rubiales svo Hermoso á munninn, í hennar óþökk, og spænska saksóknaraembættið skoðar það nú hvort grundvöllur sé fyrir því að ákæra forsetann fyrir kynferðislega áreitni.
Verði hann fundinn sekur gæti hann átt von á fjársekt eða fangelsisvist, frá einu ári upp í allt að fjögur ár.