Búið að ákæra forsetann

Luis Rubiales faðmaði og kyssti leikmenn eftir leik.
Luis Rubiales faðmaði og kyssti leikmenn eftir leik. AFP/Franck Fife

Saksóknaraembættið á Spáni ákærði í dag Luis Rubiales, forseta knattspyrnusambandsins, fyrir kynferðislega áreitni í garð leikmannsins Jenni Hermoso eftir úrslitaleik HM kvenna í síðasta mánuði.

Rubiales verður kallaður til yfirheyrslu sem sakborningur og Hermoso sem fórnarlamb. Dómari mun síðan rannsaka málið frekar og ákveða hvort málið verði látið niður falla, eða fari í dómsal.

Rubiales kyssti Hermoso á munninn eftir leikinn, í hennar óþökk. Hún leitaði sjálf til lögreglunnar á dögunum og lagði fram kæru. Saksóknaraembættið ákvað í kjölfarið að ákæra forsetann. 

Samkvæmt spænskum lögum gæti Rubiales átt yfir höfði sér allt að fjögurra ára fangelsi. Hann gæti þó sloppið með sekt, verði hann fundinn sekur. 

Hermoso kvartaði einnig yfir því að Rubiales hafi reynt að þvinga sig til að koma honum til varnar eftir atvikið, sem hún hafnaði. Gæti hann hlotið þyngri refsingu vegna þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert