Hermoso vel fagnað í Mexíkó

Jenni Hermoso gengur inn á völlinn fyrir leik Pachuca og …
Jenni Hermoso gengur inn á völlinn fyrir leik Pachuca og Pumas í gær. AFP/Jaime Lopez

Jenni Hermoso, spænska knattspyrnukonan sem fráfarandi forseti spænska knattspyrnusambandsins kyssti á munninn eftir sigur Spánverja á heimsmeistaramótinu, fékk hlýjar viðtökur hjá félagsliði sínu í gær.

Jenni Hermoso með viðurkenninguna á vellinum fyrir leikinn.
Jenni Hermoso með viðurkenninguna á vellinum fyrir leikinn. AFP/Jaime Lopez

Hermoso lék þá sinn fyrsta leik eftir heimsmeistaramótið, með liði sínu Pachuca í Mexíkó, og var afar vel fagnað af stuðningsfólki liðsins og liðsfélögum.

Fyrir leikinn afhjúpaði hún veggmynd af sér á Hidalgo Stadium, leikvangi Pachuca, og fékk afhenta sérmerkta treyju frá félaginu.

Leikurinn fór fram nokkrum klukkustundum áður en forsetinn, Luis Rubiales, sagði loks af sér eftir mikinn þrýsting á Spáni en Hermoso hefur lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðislega áreitni.

Pachuca vann leikinn, 2:1, og er í sjötta sæti af átján liðum mexíkósku deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert