Þekktir knattspyrnumenn hafa brugðist við og rétt hjálparhönd vegna jarðskjálftans sem skók Marokkó á föstudagskvöldið og varð í það minnsta rúmlega tvö þúsund manns að bana.
Portúgalinn Cristiano Ronaldo á fjögurra stjörnu hótel með 172 herbergjum í ferðamannaborginni Marrakesh þar sem nóttin kostar um 35 þúsund krónur. Hann hefur nú opnað þar allar dyr fyrir fólki sem hefur flúið heimili sín á jarðskjálftasvæðinu.
Achraf Hakimi, landsliðsmaður Marokkó og leikmaður París SG í Frakklandi, fór fyrir hópi landsliðsmanna Marokkó sem mættu til blóðgjafar til aðstoðar þeim fjölmörgu sem slösuðust í skjálftanum. Lið Marokkó, sem endaði í fjórða sæti heimsmeistaramótsins í Katar síðasta vetur, átti að mæta Líberíu á Afríkumótinu en viðureigninni hefur verið frestað vegna jarðskjálftans.