Knattspyrnukonan Georgia Stanway, miðjumaður Bayern München og enska landsliðsins, kveðst vonast til þess að afsögn Luis Rubiales sem forseta spænska knattspyrnusambandsins hjálpi til við framgang kvennaknattspyrnu.
„Allir hafa barist og við sem hópur knattspyrnukvenna börðumst. Við höfum barist sem leikmenn, við höfum barist sem starfsfólk og við höfum barist sem fjölmiðlafólk til þess að þetta yrði niðurstaðan,“ sagði Stanway í samtali við BBC Sport.
Rubiales sagði af sér á dögunum eftir hafa sætti mikilli gagnrýni úr öllum áttum í kjölfar þess að hann kyssti Jenni Hermoso, leikmann heimsmeistara Spánar, á munninn í hennar óþökk. Hefur Hermoso lagt fram kæru vegna málsins.
„Augljóslega er þetta niðurstaðan sem við vildum en á sama tíma viljum að þetta verði upphafið að einhverju í stað þess að vera endirinn á einhverju.
Við viljum halda áfram að hafa þessar samræður og að okkur líði vel með það. Að okkur líði vel á vinnustað okkar og að okkur finnist við geta staðið með því málefni sem okkur finnst rétt að gera,“ bætti Stanway við.