Jens Lehmann, fyrrverandi knattspyrnumarkvörður hjá Arsenal, hefur verið gert, af saksóknarembættinu í München í Þýskalandi, að sæta sálfræðimati vegna undarlegs hátternis síns undanfarin ár.
Lehmann er meðal annars gefið að sök að hafa eyðilagt hluta af þaki á bílskúr nágranna síns með keðjusög í júlí á síðasta ári. Þótti honum þakið byrgja sér sýn og koma í veg fyrir gott útsýni yfir Starnberg-fljót í Bæjaralandi.
Skemmdarverkið náðist á öryggismyndavélar.
Lehmann er einnig sagður hafa margsinnis komið sér undan því að greiða fyrir að leggja bifreið sinni á bílastæði við flugvöllinn í München, með því að aka með hraði undir vegtálma, þar sem venjan er að greiða fyrir nýtingu bílastæða.
Grunur leikur á um að Lehmann sé með andfélagslega persónuleikaröskun og greinir þýski miðillinn Bild frá því að saksóknaraembættið í München vilji senda Lehmann í sálfræðimat, með það fyrir augum að fá á hreint hvort hann geti talist sakhæfur eður ei.