Landsliðsmaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson fór mikinn í 2:1-útisigri Leuven á Mechelen í belgísku A-deildinni í fótbolta í dag.
Jón Dagur kom Leuven yfir strax á annarri mínútu, 1:0. Á 15. mínútu brenndi hann svo af víti og tókst ekki að tvöfalda forystu Leuven.
Leuven-menn komust í 2:0 undir lok fyrri hálfleiksins en strax í byrjun síðari minnkaði Mechelen muninn.
Jón Dagur setti boltann svo í netið á 80. mínútu en þá dæmdi VAR-sjáin markið af. Landsliðsmanninum var síðan skipt af velli á fjórðu mínútu uppbótartímans, en Leuven vann að lokum leikinn 2:1.
Leuven er í 12. sæti deildarinnar með níu stig eftir þennan mikilvæga sigur.