Landsliðsmaðurinn Hörður Björgvin Magnússon meiddist strax í upphafi leiks Panathinaikos og AEK frá Aþenu í grísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Hörður var í byrjunarliði Panathinaikos, en leikurinn var vart byrjaður þegar varnarmaðurinn þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Til að bæta gráu ofan á svart vann AEK 2:1-útisigur.
Tapið var það fyrsta hjá Herði og félögum í deildinni á leiktíðinni, en liðið er í þriðja sæti með níu stig eftir fjóra leiki.