Hörður Björgvin Magnússon, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu og Panathinaikos í Grikklandi, er með slitið krossband.
Þetta staðfesti hann í samtali við mbl.is og Morgunblaðið í dag.
Hörður Björgvin, sem er þrítugur, fór meiddur af velli í leik Panathinaikos og AEK Aþenu í efstu deild Grikklands í Aþenu í gær.
Miðvörðurinn fór af velli eftir fjögurra mínútna leik en hann gekk til liðs við gríska félagið frá CSKA Moskvu sumarið 2022.
Alls á hann að baki 49 A-landsleiki fyrir Ísland þar sem hann hefur skorað tvö mörk en ljóst er að hann leikur ekki með landsliðinu í undankeppni EM 2024 sem lýkur í nóvember á þessu ári.