Elísabet lætur af störfum hjá Kristianstad

Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað sænska liðið Kristianstad í 15 ár …
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað sænska liðið Kristianstad í 15 ár og náð eftirtektarverðum árangri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet Gunnarsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem þjálfari kvennaliðs Kristianstad í knattspyrnu að loknu yfirstandandi tímabili.

Elísabet tók við starfinu fyrir tímabilið 2009 og verður því búin að vera þjálfari Kristianstad í rétt tæplega 15 ár þegar tímabilinu lýkur.

„Að lýsa tíma Betu í starfi Kristianstad er áskorun á pari við að skrifa nýja útgáfu af Hringadróttinssögu.

Stutta útgáfan er sú að Beta hefur verið aðalþjálfari okkar frá árinu 2009 og að á þessum 15 árum höfum við tekið framförum, bæði hvað íþróttina varðar og skipulagið. Í íþróttinni er hápunktarnir þriðja sætið í úrvalsdeildinni árin 2020 og 2021 auk bikarúrslita árin 2014 og 2019.

Öll vinnan sem Beta hefur lagt sig á utan vallar í gegnum árin, fyrir sænska knattspyrnu almennt og Kristianstad sérstaklega, hefur verið ómetanleg og erum við innilega þakklát fyrir hana,“ sagði Stina Trimark, forseti Kristianstads, í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Hef verið lánsöm

Elísabet þakkaði þá kærlega fyrir sig.

„Fyrst og fremst vil ég þakka félaginu og Kristianstad. Félagið og borgin hafa stuðlað að frábærri reynslu í mínu lífi.

Ég hef verið lánsöm og fengið tækifæri til þess að koma á vinnustað á hverjum degi í 15 ár með fólki sem ég get í dag kallað vini mína fyrir lífstíð.

Við höfum skemmt okkur vel saman í bæði mótlæti og þegar við höfum náð árangri. Þó að tími minn hjá félaginu sem aðalþjálfari sé á enda táknar hann ekki endalok mín hjá því. Kristianstad mun alltaf eiga sér sérstakan stað í hjarta mínu,“ sagði hún.

Kristianstad á eftir fimm leiki í sænsku úrvalsdeildinni og einn, hugsanlega fleiri, í bikarkeppninni. Liðið er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert