Fall á lyfjaprófinu staðfest

Paul Pogba á langt keppnisbann yfir höfði sér.
Paul Pogba á langt keppnisbann yfir höfði sér. AFP/Marco Bertorello

Franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba féll á lyfjaprófi á dögunum en ítalskir fjölmiðlar skýra frá því í dag að skoðun á seinna sýni frá honum hefði rétt eins og sú fyrri sýnt að hann hefði tekið inn karlkynshormónið testósterón.

Pogba var tekinn í lyfjapróf þann 20. ágúst, eftir að lið hans Juventus mætti Udinese á útivelli en hann sat á varamannabekknum allan þann leik.

Fyrir þremur vikum var tilkynnt að hann hefði fallið á lyfjaprófinu en beðið var eftir staðfestingu á seinna sýninu.

Hann var settur í æfingabann og hefur ekki æft með liðinu frá því tilkynnt var um fyrri niðurstöðuna.

Pogba, sem er þrítugur, er samningsbundinn Juventus til 2025 en samkvæmt Sky Sport Italia skoðar Juventus nú að rifta samningnum. Miðjumaðurinn, sem varð heimsmeistari með franska landsliðinu árið 2018, kom til Juventus frá Manchester United árið 2022 en hann lék áður með ítalska félaginu á árunum 2012 til 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert