Heimir tjáði sig um Greenwood

Mason Greenwood, annar frá vinstri í efri röð, fyrir leik …
Mason Greenwood, annar frá vinstri í efri röð, fyrir leik með Getafe í síðasta mánuði. Ljósmynd/Getafe

Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Jamaíku í knattspyrnu, kveðst opinn fyrir því að sóknarmaðurinn Mason Greenwood skipti um ríkisfang og leiki fyrir liðið.

„Við viljum vera með sem hæfileikaríkasta leikmenn í liðinu okkar. Ef hann kemst í gott form gæti hann hjálpað liðinu.

Allir þjálfarar vilja auðvitað hafa góða leikmenn í sínu liði. Ég vil sem besta leikmenn í mínu liði,“ sagði Heimir í samtali við Jamaica Gleaner er hann var spurður út í Greenwood.

Hann á að baki einn A-landsleik fyrir England, sem kom gegn Íslandi á Laugardalsvelli í september árið 2020 en getur samt sem áður skipt um ríkisfang og leikið fyrir Jamaíku, þaðan sem Greenwood á ættir að rekja.

Getur skipt ef hann vill

Þrátt fyrir að um keppnisleik hafi verið að ræða get­ur leikmaður samkvæmt reglum FIFA skipt um rík­is­fang og leikið fyr­ir annað landslið ef:

1. Leikmaður­inn var með rík­is­fang nýja knatt­spyrnu­sam­bands­ins þegar hann lék sinn fyrsta lands­leik fyr­ir fyrra A-landslið sitt.

2. Leikmaður­inn lék í mesta lagi þrjá keppn­is­leiki fyr­ir fyrra A-landsliðið áður en hann náði 21 árs aldri.

3. Leikmaður­inn hef­ur ekki leikið keppn­is­leik í loka­keppni með téðu landsliði.

4. Að minnsta kosti þrjú ár eru liðin frá því að leikmaður­inn lék síðast fyr­ir fyrra landslið sitt.

Tikkar Greenwood, sem leikur nú með Getafe á Spáni að láni frá Manchester United, í öll fjögur box.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert