Óskar Hrafn Þorvaldsson er tekinn við stjórnartaumunum hjá karlaliði Haugasunds, sem leikur í norsku úrvalsdeildinni.
Óskar Hrafn skrifaði undir samning sem gildir frá 1. nóvember á þessu ári og út tímabilið 2026.
Haugasund er sem stendur í 13. sæti af 16 liðum í norsku úrvalsdeildinni þegar sex umferðir eru óleiknar, einu stigi fyrir ofan umspilssæti og þremur fyrir ofan fallsæti.
Tímabilið mun standa yfir fram í byrjun desember og verður fyrsta verkefni hans því að halda Haugasundi uppi í norsku úrvalsdeildinni. Stýrir Óskar Hrafn liðinu í síðustu fjórum deildarleikjum þess á tímabilinu.
Hann lét af störfum hjá Breiðabliki á dögunum eftir að hafa stýrt karlaliðinu í riðlakeppni í Evrópu, Sambandsdeild UEFA, fyrst íslenskra karlaliða, á yfirstandandi tímabili.
Urðu Blikar þá Íslandsmeistarar undir stjórn Óskars Hrafns á síðasta ári.