Heimir tjáir sig um Mason Greenwood

Mason Greenwood og Heimir Hallgrímsson.
Mason Greenwood og Heimir Hallgrímsson. AFP

Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlalandsliðs Jamaíka í knattspyrnu, ræddi málefni Masons Greenwoods á dögunum.

Greenwood, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Manchester United á Englandi en leikur núna fyrir Getafe á Spáni á láni frá United.

Hann á að baki einn A-landsleik fyrir England en mikið hefur verið rætt og ritað um það undanfarna daga hvort hann skipti um ríkisfang og ákveði að spila fyrir Jamaíka en hann á ættir að rekja til eyjunnar.

Ætla ekki að fela það

„Eins og aðrir þjálfarar vil ég hafa gæðaleikmenn í liðinu mínu. Ég ætla ekkert að fela það, ég væri spenntur fyrir því,“ sagði Heimir í samtali við Stöð 2.

„En það er svo sem ekki mín ákvörðun. Það eru forsetinn, framkvæmdastjórinn og aðrir sem ákveða það hvort hann sé velkominn eða ekki. Þeir hafa báðir gefið það út að þeir myndu vilja fá hann. Dyrnar eru opnar fyrir hann ef hann vill koma til okkar,“ sagði Heimir.

Alls konar skoðanir

Greenwood var handtekinn í janúar árið 2022, grunaður um nauðgun og líkamsárás, og hefur verið mikið í umræðunni síðasta árið en málið gegn honum var látið niður falla eftir að lykilvitni dró framburð sinn til baka.

Ég held að það sé eins og alls staðar, það eru alls konar skoðanir á því, og eðlilega. Hann fór til Spánar og það voru einhverjir sem voru á móti því og einhverjir með því.

Þannig er það bara. Ég hef alltaf haft þá skoðun að allir eigi rétt á að fá annað tækifæri til að sýna sig og sanna.

Maður fær ekki og nær ekki að þroskast nema maður geri mistök einhvers staðar á leiðinni og fái að bæta það upp,“ bætti Heimir við í samtali við Stöð 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert