Forsetinn fyrrverandi í þriggja ára bann

Luis Rubiales.
Luis Rubiales. AFP/Thomas Coex

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti í dag að Luis Rubiales, fyrrverandi forseti spænska knattspyrnusambandsins, hefði verið settur í þriggja ára bann frá öllum afskiptum af fótbolta.

Þetta er niðurstaðan í kjölfar rannsóknar á framkomu Rubiales sem varð alræmdur eftir úrslitaleik heimsmeistaramóts kvenna í sumar þegar hann kyssti Jennifer Hermoso, leikmann spænska liðsins, á munninn í fagnaðarlátunum.

Framkoma hans skyggði á glæsilegan sigur spænska liðsins á mótinu og í kjölfarið var hann rekinn úr starfi sem forseti spænska sambandsins, og úr stjórn UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, þar sem hann gegndi embætti varaforseta.

Rubiales er 46 ára gamall,  fæddur í Las Palmas á Kanaríeyjum og lék á sínum tíma sem varnarmaður með sex félögum í fjórum efstu deildum Spánar, þar sem hann var m.a. fyrirliði Levante í efstu deild, en lauk ferlinum árið 2009 með Hamilton í Skotlandi. Hann varð formaður samtaka spænskra knattspyrnumanna árið 2010 og tók við sem forseti spænska knattspyrnusambandsins árið 2018. Hann varð varaforseti UEFA árið 2019.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert