Knattspyrnumennirnir Erling Haaland og Kylian Mbappé gætu báðir verið á leið til spænska stórliðsins Real Madrid.
Það er spænski miðillinn El Chiringuito sem greinir frá þessu en báðar hafa þeir verið lengi á óskalista forráðamanna félagsins.
Haaland, sem er 23 ára gamall, er samningsbundinn Manchester City á Englandi til sumarsins 2027 en hann hefur skorað 65 mörk í 68 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.
Samningur Mbappés, sem er 24 ára gamall, við París SG í Frakklandi rennur út næsta sumar og því getur hann farið frítt frá félaginu en hann hefur verið sterklega orðaður við Spánarmeistarana undanfarnar vikur.
Tvímenningarnir þykja á meðal bestu knattspyrnumanna heims í dag en Real Madrid hefur verið að yngja mikið upp í leikmannahópi sínum á undanförnum árum.