Hættir með Englandsmeistarana og tekur við Bandaríkjunum

Emma Hayes, knattspyrnustjóri Chelsea.
Emma Hayes, knattspyrnustjóri Chelsea. AFP

Emma Hayes, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Chelsea í knattspyrnu kvenna, mun láta af störfum hjá liðinu að loknu yfirstandandi tímabili eftir tólf ára starf.

The Athletic greinir frá því að þegar tímabilinu lýkur í vor muni hún taka við stjórnartaumunum hjá bandaríska kvennalandsliðinu.

Hayes tók við Chelsea sumarið 2012 og hefur verið einstaklega sigursæl.

Alls hefur Chelsea unnið ensku úrvalsdeildina sex sinnum undir hennar stjórn, ensku bikarkeppnina fimm sinnum og enska deildabikarinn í tvígang.

Árið 2021 hafnaði Chelsea þá í öðru sæti í Meistaradeild Evrópu.

Hayes hefur áður þjálfað í Bandaríkjunum. Hún hóf þjálfaraferilinn hjá Long Island Lady Riders í upphafi aldarinnar og var svo þjálfari Iona Gaels, háskólaliðs Iowa University, auk þess sem Hayes þjálfaði Chicago Red Stars í UWSL-deildinni á árunum 2008 til 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert