Stórstjarnan frá í tvo mánuði

Vinicius Junior í leik með Real Madríd á tímabilinu.
Vinicius Junior í leik með Real Madríd á tímabilinu. AFP/Thomas Coex

Knattspyrnumaðurinn Vinícius Júnior, ein af stjörnum Real Madríd og brasilíska landsliðsins, verður frá í tvo mánuði vegna meiðsla.

 Hann fór meiddur af velli í fyrri hálfleik þegar Brasilía og Kólumbía áttust við síðastliðinn fimmtudag, Real Madríd staðfesti í dag að hann tognaði í aftanverðu læri.

Áður en hann fór meiddur af velli gaf hann Gabriel Martinelli stoðsendingu en Brasilía tapaði þó að lokum 2:1.

Næsti leikur Brasilíu er stórleikur gegn Argentínu í undankeppni HM á miðvikudaginn en Vinícius hefur dregið sig úr hópnum.

Real Madríd er í 2. sæti í spænsku úrvalsdeildinni og 1. sæti í C-riðli í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert