Forráðamenn knattspyrnuliðs Barcelona á Spáni eru brjálaðir út í Luis de la Fuente, þjálfara spænska karlalandsliðsins.
Það er Goal.com sem greinir frá þessu en Gavi, leikmaður Spánar og Barcelona, sleit krossband í leik liðsins gegn Georgíu í A-riðli undankeppni EM 2024 í Valladolid í gær.
Spánverjar voru búnir að tryggja sér sæti í lokakeppninni fyrir yfirstandandi landsleikjaglugga en Gavi var í byrjunarliðinu í báðum leikjum Spánar, gegn Georgíu og svo gegn Kýpur á fimmtudaginn.
Forráðamenn Barcelona eru ósáttir með það að hann hafi verið látinn byrja báða leikina þar sem lítið var undir en hann verður frá keppni út tímabilið hið minnsta.
Þá mun hann að öllum líkindum missa af lokamótinu næsta sumar sem fram fer í Þýskalandi en Gavi er einungis 19 ára gamall.