U21-árs landslið Danmerkur gerði góða ferð til Wales og hafði betur, 2:1, þegar liðin áttust við í I-riðli, riðli Íslands, í undankeppni EM 2025 í knattspyrnu karla í aldursflokknum.
Danir náðu forystunni snemma leiks og tvöfölduðu hana svo einni mínútu fyrir leikslok.
Í uppbótartíma minnkuðu heimamenn í Wales muninn en komust hins vegar ekki nær.
Danmörk er þar með fyrsta liðið til þess að leggja Wales að velli í riðlinum og fór með sigrinum upp fyrir velska liðið í honum.
Bæði lið eru nú með 8 stig en Danmörk hefur leikið fjóra leiki og Wales fimm.
Ísland kemur þar á eftir með 6 stig eftir þrjá leiki og er því enn í fínni stöðu þrátt fyrir að hafa tapað fyrir Wales í síðustu viku.