Ítalski knattspyrnumaðurinn Fabio Quagliarella hefur lagt skóna á hilluna, 41 árs að aldri.
Quagliarella lék síðast með Sampdoria í ítölsku A-deildinni en hann er uppalinn hjá Torino.
Hann hefur leikið með liðum á borð við Fiorentina, Sampdoria. Udinese, Napoli og Juventus á ferlinum.
„Ég er tilneyddur til þess að kalla þetta gott,“ sagði Quagliarella í færslu sem hann birti á samfélagsmiðlum.
„Ég er í óásættanlegu líkamlegu formi og það er því ekki möguleiki fyrir mig að snúa aftur á knattspyrnuvöllinn,“ sagði Ítalinn meðal annars.
Quagliarella lék 28 A-landsleiki fyrir Ítalíu og þá varð hann þrívegis Ítalíumeistari með Juventus á ferlinum.