Knattspyrnustjórinn Steven Gerrard virðist hafa skipt um skoðun þegar kemur að því hver sé besti knattspyrnumaður sögunnar.
Gerrard, sem er 43 ára gamall, stýrir í dag Al-Ettifaq í efstu deild Sádi- Arabíu en tjáði Gary Neville, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, í hlaðvarpsþætti hans á síðasta ári að Lionel Messi væri besti leikmaður sögunnar.
Gerrard gerði garðinn frægan hjá Liverpool og var fyrirliði liðsins í meira en áratug en hann er í dag fjórði launahæsti knattspyrnustjóri heims.
Hann var í viðtali við sjónvarpsstöð efstu deildar Sádi-Arabíu og þá vildi stjórinn meina að Cristiano Ronaldo væri besti leikmaður allra tíma.
„Það var gríðarlega stórt fyrir sádiarabísku deildina að fá besta leikmann heims, Cristiano Ronaldo, á sínum tíma,“ sagði Gerrard meðal annars.