Franski knattspyrnumaðurinn Eduardo Camavinga, miðjumaður Real Madríd, meiddist illa á hné á æfingu með franska landsliðinu fyrir helgi og þurfti af þeim sökum að draga sig úr leikmannahópnum.
Spænska stórveldið hefur tilkynnt að miðjumaðurinn öflugi hafi slitið ytra liðband á hægra hné og megi því eiga von á að vera frá keppni um átta til tíu vikna skeið.
Spilar Camavinga því ekki aftur fyrr en á næsta ári.
Áður hafði verið greint frá því að ein stærsta stjarna Madrídinga, Vinícius Júnior, hafi meiðst alvarlega aftan á læri í leik með brasilíska landsliðinu fyrir helgi og verði af þeim sökum frá í svipað langan tíma.
Landsleikjahléið fór því ansi illa með Real Madríd, en stórstjarna Jude Bellingham dró sig einnig úr enska landsliðshópnum vegna meiðsla á öxl. Þau meiðsli eru þó ekki talin alvarleg.