Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Bayer Leverkusen í Þýskalandi er ekki með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið fyrir Liverpool, Real Madrid eða Bayern München.
Þetta tilkynnti Fernando Carro, stjórnarformaður Leverkusen, í samtali við talkSport á dögunum.
Alonso, sem er 41 árs gamall, tók við stjórnartaumunum hjá Bayer Leverkusen í október á síðasta ári og hefur gert frábæra hluti með liðið á tímabilinu en Leverkusen situr á toppi þýsku 1. deildarinnar með 31 stig eftir fyrstu ellefu umferðirnar og er taplaust.
Miðjumaðurinn fyrrverandi gerði garðinn frægan sem leikmaður með Liverpool, Real Madrid og loks Bayern München og hefur hann verið sterklega orðaður við stjórastöðuna hjá Real Madrid að undanförnu.
Carlo Ancelotti mun láta af störfum sem stjóri Real Madrid eftir tímabilið en Alonso er samningsbundinn Leverkusen til sumarsins 2026.