Knattspyrnusambandið reynir að leysa mál transkonunnar

Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur fengið mál transkonunnar Francescu Needham, leikmanns Rossington Ladies í áhugamannadeild í Sheffield, inn á borð til sín.

Telegraph greindi frá því að fjögur lið í deildinni hafi neitað að spila við Rossington sé Needham teflt fram þar sem hún hafi meitt andstæðing sinn.

BBC Sport greinir frá því að meiðslin hafi komið til vegna skots Needhams sem hafi farið í hné mótherja, með þeim afleiðingum að mótherjinn meiddist illa og getur ekki tekið frekari þátt á tímabilinu.

Needham íhugar að höfða mál vegna mismununar.

Áhersla lögð á öryggi

Samkvæmt stefnu enska knattspyrnusambandsins þegar kemur að transfólki í íþróttinni mega leikmenn sækja um að spila í deildum út frá kyntjáningu sinni.

Hver umsókn er skoðuð fyrir sig þar sem lögð er áherslu á öryggi þess sem sækir um og annarra leikmanna auk sanngirni í keppni.

Enska knattspyrnusambandið vinnur nú að úrlausn málsins í samstarfi við knattspyrnusamband Sheffield og Hallamskíris.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert