Létu samherja sinn heyra það fyrir kjánalegt rautt spjald

Sergino Dest í fyrri leik liðanna fyrir helgi.
Sergino Dest í fyrri leik liðanna fyrir helgi. AFP/Darren Carroll

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Sergino Dest vakti ekki mikla lukku á meðal samherja sinna í bandaríska landsliðinu og þá ekki hjá landsliðsþjálfaranum Gregg Berhalter þegar hann fékk tvö gul spjöld á hálfri mínútu í 1:2-tapi fyrir Trínidad og Tóbagó í nótt.

Um síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum A-deildar Þjóðadeildar Norður- og Mið-Ameríku var að ræða og kom tapið í nótt ekki að sök þar sem Bandaríkin unnu fyrri leikinn 3:0 og einvígið því samanlagt 4:2.

Antonee Robinson, vinstri bakvörður Fulham, kom Bandaríkjunum í forystu á 25. mínútu.

Dest, hægri bakvörður PSV Eindhoven, var hins vegar eitthvað illa fyrirkallaður á 39. mínútu þegar hann fékk gult spjald fyrir að sparka boltanum upp í áhorfendastúku vegna ósættis við ákvörðun dómara leiksins.

Bakvörðurinn lét hins vegar ekki þar við sitja og brást við gula spjaldinu með stöðugum mótmælum, sem fóru ekki betur en svo að Dest fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt, tæpri hálfri mínútu eftir að hafa fengið það fyrra.

Liðsfélagarnir létu Dest heyra það

Liðsfélagar hans, þeirra á meðal Matt Turner, markvörður Nottingham Forest, og Tim Ream, miðvörður Fulham, létu Dest heyra það þegar hann gekk af velli.

Gio Reyna var þá sýnilega svekktur með liðsfélaga sinn á meðan mótmælum Dest stóð. Sóknartengiliðurinn Reyna vissi hugsanlega hvað í stefndi enda var hann tekinn af velli fyrir hálfleik og kom hægri bakvörðurinn Joe Scally inn á í hans stað.

Trínidad jafnaði metin örskömmu síðar og bætti við öðru marki í síðari hálfleik. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Bandaríkin eru komin í undanúrslit Þjóðadeildarinnar.

Þetta er óafsakanlegt

„Þetta veldur okkur áhyggjum því þetta er ekki nokkuð sem við viljum endurspegla. Við viljum halda áfram og bregðast við á viðeigandi hátt og þetta voru augljóslega ekki rétt viðbrögð hjá Sergino.

Hann bað hópinn afsökunar og sagði að þetta myndi ekki gerast aftur. Sem lið, leikmennirnir og starfsliðið, þurfum við að draga hann til ábyrgðar því þetta er óafsakanlegt.

Við létum hann vita hvað okkur fannst eftir leikinn,” sagði Berhalter við fréttamenn eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert