Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, þarf að greiða spænska félaginu Barcelona háar fjárhæðir á hverjum degi á meðan ungstirnið Gavi verður frá vegna meiðsla.
Gavi varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik með spænska landsliðinu um liðna helgi og má af þeim sökum eiga von á því að vera frá í um það bil níu mánuði.
Samkvæmt reglugerðum FIFA um vernd félaga þarf sambandið að greiða Barcelona 20.548 evrur á hverjum degi sem Gavi er frá.
Sú upphæð nemur rúmum 3 milljónum íslenskra króna.
Verði miðjumaðurinn öflugi frá um níu mánaða skeið þarf FIFA að greiða Börsungum rúmlega 5,6 milljónir evra í bætur, tæplega 865 milljónir íslenskra króna.