Að minnsta kosti fjögur kvennalið í knattspyrnu í áhugamannadeild í Sheffield á Englandi hafa neitað að spila við lið sem teflir fram transkonu í deildinni. Hún er sökuð um að hafa meitt andstæðing með þeim afleiðingum að viðkomandi knattspyrnukona getur ekki spilað meira á tímabilinu.
Telegraph greinir frá því að félögin fjögur beri við ótta um öryggi sitt og vilji því ekki spila gegn liði Rossington Ladies, sem téð transkona leikur með.
Á sunnudagskvöld neitaði Mexborough Athletic að spila við Rossington til að mótmæla því að síðarnefnda liðið stilli upp hinni 31 árs gömlu transkonu Francescu Needham, þar sem ólga ríkir innan deildarinnar vegna meintra tengsla hennar við atvik sem leiddi til alvarlegra meiðsla mótherja hennar.
Needham ákvað sjálf í kjölfarið að spila ekki fyrir lið Rossington um óákveðinn tíma og útskýrði ákvörðun sína í yfirlýsingu:
„Ég gengst við þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir frá liðum sem vilja ekki spila gegn okkur á meðan ég er inni á vellinum.“
Needham hyggst hins vegar nú höfða mál á grundvelli mismununar.