Sögulegt afrek versta liðs heims

Leikmenn San Marínó stilla sér upp fyrir leik gegn Danmörku …
Leikmenn San Marínó stilla sér upp fyrir leik gegn Danmörku í Kaupmannahöfn í september. AFP/Liselotte Sabroe

Karlalið San Marínó í knattspyrnu, sem er í 207. og neðsta sæti styrkleikalista FIFA, vann í gærkvöldi mikið afrek þegar liðið tapaði 1:2 fyrir Finnlandi í lokaumferð H-riðils undankeppni EM 2024.

Með því að minnka muninn undir lokin í gær skoraði San Marínó í þriðja keppnisleik sínum í röð.

Er það í fyrsta sinn í sögu landsliðsins sem því tekst að skora í þremur keppnisleikjum í röð. Skoraði San Marínó einnig í 3:1-tapi fyrir Kasakstan í riðlinum og sömuleiðis í 2:1-tapi fyrir Danmörku.

Alls urðu mörkin þrjú hjá San Marínó í riðlinum. Til samanburðar er það meira en Eistlandi, Færeyjum, Gíbraltar, Liechtenstein og Möltu tókst að skora í undankeppninni og jafnmörg mörk og bæði Andorra og Kýpur skoruðu.

Það breytir því ekki að San Marínó hefur aldrei tekist að vinna keppnisleik og hefur ekki unnið leik í að verða 20 ár.

San Marínó hefur nú leikið 136 leiki í röð án sigurs, sem er heimsmet hjá landsliði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert