Svein Oddvar Moen, einn besti knattspyrnudómari Noregs, hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir skattalagabrot.
Þá hefur honum einnig verið gert að greiða 100.000 norskar krónur í sekt, sem samsvarar rúmlega milljón íslenskra króna.
Samkvæmt dómnum sveikst Moen undan því að greiða nokkrar milljónir norskra króna í skatt. Hann játaði brot sitt og viðurkenndi að hann hafi gert mistök.
Var það gert honum til refsilækkunar, sem og að um fyrsta brot var að ræða. Þá taldi dómarinn að Moen hafi ekki framið brotin vísvitandi.