Ilkay Gündogan, fyrirliði þýska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var afar svekktur eftir 2:0-tap liðsins fyrir Austurríki í vináttulandsleik í gærkvöldi.
Þýskaland hefur nú tapað sex af ellefu leikjum sínum á árinu og undirbúningurinn fyrir EM 2024, þar sem Þjóðverjar eru gestgjafar, því ekki gengið sem skyldi.
Marcel Sabitzer og Christoph Baumgartner skoruðu mörk Austurríkis. Á milli markanna fékk Leroy Sané beint rautt spjald í byrjun síðari hálfleiks, fyrir að hrinda Philipp Mwene af miklum krafti.
„Þetta getur að minnsta kosti ekki versnað. Það er það eina jákvæða við þetta. Rauða spjaldið hjá Leroy endurspeglar frammistöðuna fullkomlega.
Pirringurinn og svekkelsið. Við gerðum Austurríkismönnum allt of auðvelt fyrir. Við vorum ekki nægilega góðir,“ sagði Gündogan í samtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF eftir leik.