Landsliðskonan mátti þola tap – meistararnir unnu

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn með Rosengård.
Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn með Rosengård. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Portúgalska liðið Benfica fagnaði í kvöld 1:0-heimasigri á Rosengård frá Svíþjóð í 2. umferð A-riðils í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård, en gat ekki komið í veg fyrir tap. Portúgalska landsliðskonan Francisca Nazareth skoraði sigurmarkið á 52. mínútu.

Svava Rós Guðmundsdóttir lék ekki með Benfica vegna meiðsla, en hún fór úr mjaðmarlið í síðasta mánuði.

Í sama riðli unnu ríkjandi Evrópumeistarar Barcelona 3:1-útisigur á Frankfurt í Þýskalandi. Laura Freigang kom Frankfurt yfir á 42. mínútu og var staðan í hálfleik 1:0.

Salma Paralluelo jafnaði á 48. mínútu og ellefu mínútum síðar breytti Mariona Caldentey stöðunni í 2:1 fyrir Barcelona. Paralluelo gerði annað markið sitt og þriðja mark Barcelona á 62. mínútu.

Barcelona er í toppsæti riðilsins með sex stig, Frankfurt í öðru með þrjú, Benfica í þriðja með þrjú og Rosengård er stigalaust á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert