Njarðvíkingurinn valinn bestur hjá Norrköping

Arnór Ingvi Traustason í leik með íslenska landsliðinu gegn því …
Arnór Ingvi Traustason í leik með íslenska landsliðinu gegn því portúgalska í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu og miðjumaður sænska félagsins Norrköping, var á verðlaunahátíð félagsins á laugardag valinn besti leikmaður tímabilsins. Vann hann raunar tvöfalt.

Stærstu verðlaun hátíðarinnar, „Folkets lirare,“ þar sem stuðningsmenn liðsins kusu besta leikmanninn á heimasíðu félagsins, komu í hlut Njarðvíkingsins.

Auk þess var hann útnefndur besti leikmaður tímabilsins að mati staðarblaðsins Norrköpings Tidningar.

Arnór Ingvi átti ekki heimangengt á verðlaunaafhendinguna þar sem hann var upptekinn í verkefni með íslenska landsliðinu.

Ari Freyr Skúlason, sem lék sinn síðasta leik á ferlinum fyrir Norrköping fyrr í mánuðinum, hljóp í skarðið og tók við verðlaunabikurunum tveimur fyrir hönd Arnórs Ingva.

Ari Freyr Skúlason tók við verðlaununum fyrir hönd Arnórs Ingva …
Ari Freyr Skúlason tók við verðlaununum fyrir hönd Arnórs Ingva Traustasonar. Ljósmynd/ifknorrkoping.se

Aldrei skorað meira

Arnór Ingvi lék frábærlega á miðju Norrköping og var á meðal bestu leikmanna sænsku úrvalsdeildarinnar.

Þrátt fyrir að spila aftar á vellinum en áður á ferli sínum hefur hann aldrei skorað fleiri mörk á einu tímabili en í ár. Var Arnór Ingvi markahæsti leikmaður Norrköping á tímabilinu með níu mörk í 28 deildarleikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert