Karlaliði Barnsley í knattspyrnu hefur verið vikið úr ensku bikarkeppninni fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni í endurteknum leik sínum gegn Horsham í 1. umferð keppninnar.
Liðin áttust við á heimavelli Barnsley í upphafi mánaðarins og gerðu þar 3:3 jafntefli.
Því þurftu þau að mætast aftur á heimavelli Horsham og vann Barnsley þann leik 3:0.
Sóknarmaðurinn Aiden Marsh, leikmaður Barnsley, var í byrjunarliðinu í síðari leiknum en mátti ekki taka þátt í honum.
Ástæðan fyrir því er sú að þegar fyrri leikurinn fór fram þann 3. nóvember var Marsh á láni hjá York City.
Þremur dögum síðar var hann kallaður til baka en samkvæmt reglum enska knattspyrnusambandsins mega einungis þeir leikmenn sem voru löglegir í fyrri leiknum taka þátt í endurteknum leik í bikarkeppninni og hefur Barnsley, sem leikur í C-deild, því verið dæmt úr keppni.
Horsham, sem leikur í G-deild, sjöundu efstu deild Englands, fer því áfram í aðra umferð ensku bikarkeppninna og mætir þar D-deildar liði Sutton United.