Sögulegur sigur Argentínu í Ríó

Lionel Messi fagnar markinu með samherjum sínum í leikslok í …
Lionel Messi fagnar markinu með samherjum sínum í leikslok í Ríó. AFP/Mauro Pimentel

Argentínsku heimsmeistararnir unnu í nótt sætan útisigur á grönnum sínum og erkifjendum í Brasilíu, 1:0, þegar þjóðirnar mættust í undankeppni HM karla 2026 í Ríó de Janeiro.

Varnarmaðurinn  reyndi Nicolás Otamendi skoraði sigurmarkið á 63. mínútu eftir sendingu frá Giovani Lo Celso.

Brasilíumenn misstu Joelinton af velli með rautt spjald á 81. mínútu, níu mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Nicolás Otamendi og Rodrigo De Paul fagna sigurmarkinu í Ríó …
Nicolás Otamendi og Rodrigo De Paul fagna sigurmarkinu í Ríó í nótt. AFP/Carl de Souza

Þetta er í fyrsta skipti sem Argentína vinnur útisigur á Brasilíu í undankeppni HM. Ekki nóg með það, heldur hafði Brasilía ekki tapað heimaleik í undankeppninni frá árinu 1954.

Þá er þetta annar ósigur Brasilíu á heimavelli á undanförnum 69 árum en Lionel Messi og félagar í Argentínu hafa verið að verki í bæði skiptin.

Brasilíska liðið hefur nú tapað þremur leikjum í röð í keppninni og hefur aldrei áður byrjað verr. 

Ólæti brutust út meðal áhorfenda fyrir leikinn og lögregla þurfti að skerast í leikinn. Leiknum seinkaði um hálftíma af þeim sökum.

Brasilía er eftir þessa þrjá ósigra í óvenjulegri stöðu en liðið er aðeins í sjötta sæti undankeppninnar í Suður-Ameríku þegar sex umferðir hafa verið leiknar af 18.

Argentína er hins vegar með 15 stig á toppnum, Úrúgvæ er með 13, Kólumbía 12, Venesúela 9, Ekvador 8, Brasilía 7, Paragvæ 5, Síle 5, Bólivía 3 og Perú 2 stig. Sex efstu liðin komast beint á HM 2026 og liðið í sjöunda sæti fer í umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert