Þjálfari heimsmeistaranna íhugar að hætta

Lionel Scaloni hefur stýrt Argentínu frá árinu 2018.
Lionel Scaloni hefur stýrt Argentínu frá árinu 2018. AFP/Carl de Souza

Lionel Scaloni, þjálfari karlaliðs Argentínu í knattspyrnu, íhugar það alvarlega að stíga til hliðar sem þjálfari liðsins.

Þetta tilkynnti hann á blaðamannafundi eftir sigur Argentínu gegn Brasilíu í undankeppni HM 2026 í Ríó de Janeiro í nótt.

Scaloni, sem er 45 ára gamall, stýrði Argentínu til sigurs á HM í Katar í desember á síðasta ári en hann hefur stýrt argentínska landsliðinu frá árinu 2018.

Þarf að huga að sjálfum mér

„Argentína þarf þjálfara sem er fullur af orku og líður vel andlega,“ sagði Scaloni þegar hann ræddi við fjölmiðlamenn eftir sigur næturinnar.

„Ég þarf að hugsa um sjálfan mig og kannski er kominn tími til þess að boltinn hætti að rúlla. Leikmennirnir hafa gefið allt í verkefnið undanfarin ár. Þetta er ekki kveðjustund eða neitt slíkt en ég þarf svigrúm núna því það er búið að hækka ránna ansi mikið.

Það er ekki auðvelt að halda liðinu á sigurbraut. Ég ætla að leggjast undir felld núna og huga að framtíðinni. Ég mun ræða við formann knattspyrnusambandsins og leikmennina á næstu dögum,“ bætti Scaloni við en hann gaf ekki kost á spurningum um framtíð sína á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert