Haaland greiðir ferðakostnað stuðningsmanna uppeldisfélagsins

Erling Haaland.
Erling Haaland. AFP/Darren Staples

Norski knattspyrnumaðurinn Erling Haaland, sóknarmaður Manchester City, hefur boðist til þess að greiða ferðakostnað stuðningsmanna Bryne fyrir mikilvægan leik liðsins í umspili norsku B-deildarinnar um laust sæti í úrvalsdeildinni.

Haaland er alinn upp hjá Bryne og lék sína fyrstu meistaraflokksleiki á ferlinum fyrir liðið þegar hann var aðeins 16 ára gamall.

Markahrókurinn mun greiða lestarferð um 200 stuðningsmanna frá Bryne til Kristiansand, þar sem liðið mætir Bjarna Mark Antonssyni og félögum í Start í 1. umferð umspilsins á laugardag.

Kostnaðurinn við ferðalag stuðningsmannanna er um 175.000 norskar krónur, um 2,3 milljónir íslenskra króna.

„Það eru erfiðir tímar fyrir fólk fjárhagslega um þessar mundir og það gerir því erfiðara um vik að setja það í forgang að ferðast í leik sem þennan.

Þetta hefur gert fleiri stuðningsmönnum kleift að ferðast,“ sagði Björn Hagerud Röken í samtali við norsku sjónvarpsstöðina TV 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert