Með þrennu í Meistaradeildinni

Sam Kerr skoraði þrennu.
Sam Kerr skoraði þrennu. Ljósmynd/Chelsea FC

Ástralska markadrottningin Samantha Kerr var í miklu stuði er Chelsea vann 4:1-heimasigur á París FC í 2. umferð D-riðils í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld.

Kerr gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú fyrstu mörk Chelsea. Kom hún liðinu í 1:0 á 30. mínútu, en Théa Greboval sá til þess að staðan í hálfleik var 1:1.

Kerr var hins vegar búin að bæta við öðru og þriðja marki Chelsea á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks. Sophie Ingle gulltryggði síðan sigur enska liðsins með marki í uppbótartíma.

Sænska liðið Häcken er á toppi riðilsins með sex stig, Chelsea er í öðru með fjögur, Real Madrid í þriðja með eitt stig og Paris FC rekur lestina án stiga.

Öruggt hjá Roma

Í C-riðli vann Roma öruggan 3:0-heimasigur á Ajax. Valentina Giacinti gerði tvö fyrstu mörk Roma og Manuela Giugliano bætti við þriðja markinu á 47. mínútu.

Roma og Bayern München eru með fjögur stig á toppi riðilsins. Ajax er í þriðja með þrjú og París SG er án stiga í fjórða sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert