Ólíklegt að Elísabet taki við þjálfun karlaliðs

Elísabet Gunnarsdóttir.
Elísabet Gunnarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir mun að öllum líkindum taka við öðru kvennaliði frekar en að taka að sér þjálfun hjá karlaliði.

Elísabet, sem er 47 ára gömul, er að láta af störfum sem þjálfar Kristianstad í Svíþjóð eftir tæplega fimmtán ár í starfi.

Henni stóð til boða að taka við sem aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Mjällby í Svíþjóð en ákvað að hafna starfinu.

Mjög spennandi hlutverk

„Ég hef aldrei verið með einhvern tilbúinn lista í hausnum á mér yfir lið sem ég vil þjálfa,“ sagði Elísabet í samtali við mbl.is.

„Mjällby hafði samband og tilboðið þeirra var mjög spennandi. Eitt af mínum hlutverkum, sem aðstoðarþjálfari liðsins, var að bera ábyrgð á sóknarleik liðsins ásamt öðrum hlutum. Ég hefði verið í mjög stóru hlutverki þarna og það hefði verið frábært að prófa þetta.

Mér fannst hins vegar erfitt að kasta minni þekkingu, kvennamegin til hliðar, og þeim samböndum sem ég hef myndað þar. Mér finnst kvennaboltinn þurfa á mennskju eins og mér að halda til þess að geta haldið áfram að vaxa.

Ég ákvað að hlusta á hjartað og mér fannst þetta ekki rétti tímapunkturinn til þess að fara þjálfa hjá karlaliði,“ sagði Elísabet í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Elísabetu má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert