Í yfirlýsingu frá frönsku leikmannasamtökunum í knattspyrnu, UNFP, segir að tíðni alvarlegra meiðsla leikmanna að undanförnu megi rekja til of mikils leikjaálags. Kalla samtökin eftir endurskoðun á leikjadagskrá knattspyrnunnar.
Eduardo Camavinga meiddist illa á hné á æfingu með franska landsliðinu og Warren Zaire-Emery meiddist á ökkla í sínum fyrsta landsleik fyrir liðið.
Áður hafði enn annar franskur miðjumaður, Aurélien Tchouaméni, orðið fyrir álagsmeiðslum á vinstri fæti í sigri Real Madríd og Barcelona í síðasta mánuði.
„Við höfðum rétt fyrir okkur. Við vissum það. Við sögðum það. Endurtekið. Og sögðum það svo aftur.
En þó að æðstu stjórnendum beri skylda til þess að hlusta á okkur er það sjaldgæft að þeir hlusti í raun og veru á okkur, sérstaklega þegar hagsmunirnir sem eru í húfi fara út fyrir mörk knattspyrnuvallarins,“ sagði í yfirlýsingu UNFP.
„Það er löngu tímabært að ráðast gagngert í umbætur á dagskránni.
Ef tímabilið í kjölfar HM hefur styrkt alla þá sem krefjast endurskoðunar á leikjadagskránni í sinni skoðun er vert að benda á að þetta eru aðeins fyrstu merki um enn alvarlegri krísu sem mun á endanum skaða sjónarspilið,“ sagði einnig í yfirlýsingunni.