Jake Daniels, leikmaður Blackpool í ensku C-deildinni og eini opinberlega samkynhneigði atvinnumaðurinn í knattspyrnu á Bretlandseyjum, segist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum þegar Jordan Henderson skipti til Al-Ettifaq í Sádi-Arabíu.
Henderson hafði stutt opinberlega við ýmiss konar réttindabaráttu, þar á meðal réttindi LGBTQIA+ samfélagsins, á meðan hann var fyrirliði Liverpool og sætti því mikilli gagnrýni úr hinum ýmsu áttum þegar hann ákvað að söðla um og fara til Sádi-Arabíu.
Þar í landi er samkynhneigð ólögleg.
Daniels greinir frá því í samtali við BBC Sport að þegar hann kom út úr skápnum á síðasta ári hafi Henderson sent honum einkaskilaboð á samfélagsmiðlum þar sem hann studdi við bakið á Daniels.
„Hann studdi við bakið á mér og sagði: „Við erum stolt af því sem þú hefur áorkað.“ Að sjá hann skipta yfir til Sádi-Arabíu er í raun sem löðrungur í andlit mitt.
En ég býst við því að launin séu mjög góð og peningar hljóta að skipta sumt fólk meira máli,“ sagði Daniels við BBC.