Knattspyrnukonan unga Katla Tryggvadóttir hefur skrifað undir samning við sænska félagið Kristianstad. Hún kemur til félagsins frá Þrótti úr Reykjavík og gildir samningurinn til ársins 2026.
Katla, sem er átján ára gömul, hefur verið valin efnilegasti leikmaður Bestu deildarinnar tvö síðustu tímabil, þar sem hún hefur verið í lykilhlutverki hjá liði Þróttar.
Hún hefur leikið 39 leiki í efstu deild og skorað í þeim 13 mörk. Þá hefur hún skorað tíu mörk í 26 leikjum með yngri landsliðum Íslands.
„Við höfum fylgst með Kötlu í langan tíma. Hún kom til okkar síðasta vor og skoðaði aðstæður og það er skemmtilegt að hafa samið við hana,“ var haft eftir Lovisu Ström, þjálfara liðsins, í tilkynningu félagsins.
Kristianstad er mikið Íslendingafélag, en Elísabet Gunnarsdóttir lét af störfum sem þjálfari liðsins eftir 15 ára starf á dögunum. Sif Atladóttir lék m.a. lengi með liðinu og Hlín Eiríksdóttir leikur með því um þessar mundir.