Túfa lætur af störfum í Svíþjóð

Srdjan Tufegdzic verður ekki áfram hjá Öster.
Srdjan Tufegdzic verður ekki áfram hjá Öster. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Srdjan Tufegdzic, eða Túfa eins og hann er jafnan kallaður, hefur látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Öster í knattspyrnu.

Túfa, sem lék og þjálfaði hér á landi um langt skeið, lengst með KA en einnig hjá Grindavík og Val, tók við stjórnartaumunum hjá Öster fyrir tveimur árum en tókst á hvorugu tímabilinu að koma liðinu upp úr B-deildinni og í sænsku úrvalsdeildina, þó ekki hafi hann verið langt frá því.

Í ár hafnaði liðið í fjórða sæti B-deildarinnar og tímabilið á undan í þriðja sæti.

„Ég vil þakka öllum leikmönnum, þjálfarateyminu, stuðningsmönnum og öllu félaginu fyrir þá miklu vinnu sem við lögðum á okkur í sameiningu hjá Öster.

Ég óska ykkur alls hins besta í framtíðinni. Takk fyrir mig,“ skrifaði Túfa í kveðju sem hann birti á Facebook-síðu sinni.

Alex Þór Hauksson og Þorri Mar Þórisson eru leikmenn Öster en Alex er á leið frá félaginu eftir að hafa leikið með því í þrjú ár. Rúnar Þór Sigurgeirsson kom til Öster fyrir þetta tímabil en var í ágúst seldur til Willem II í Hollandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert