„Ef maður lítur til baka var upplifunin fín. Þetta var þannig séð frábær árangur hjá Elfsborg og liðinu, þrátt fyrir leiðinlegan endi. Það hefði verið geggjað að vinna titilinn en heilt yfir var þetta frábært tímabil hjá mér og liðinu,“ sagði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Elfsborg og landsliðsmaður í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið.
Elfsborg hafnaði í öðru sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir tap fyrir Malmö í hreinum úrslitaleik um meistaratitilinn í lokaumferð deildarinnar fyrr í mánuðinum.
Hákon bar höfuð og herðar yfir aðra markverði í deildinni á nýafstöðnu tímabili og var kjörinn besti markvörður hennar að því loknu.
„Ég er mjög sáttur við eigin frammistöðu. Ég lærði fullt á tímabilinu. Þetta var fyrsta heila tímabilið mitt í atvinnumannafótbolta. Maður lærði margt og ég er mjög stoltur af þessu tímabili. Það var heiður og mjög gaman að fá þessa viðurkenningu í lok tímabils,“ sagði hann um frammistöðu sína í ár.
Hákon, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Elfsborg frá uppeldisfélaginu Gróttu sumarið 2021 og kveðst hafa hafa bætt sig mjög mikið hjá sænska liðinu.
„Já, heilmikið. Þegar ég kom til Elfsborg var ég búinn að spila mjög mikið af leikjum í meistaraflokksfótbolta þannig að þetta var allt öðruvísi dæmi. Þegar ég kom út var ég að æfa mjög mikið en spila lítið af leikjum í heilt ár.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag