Spænska knattspyrnufélagið Barcelona missteig sig í dag í toppbaráttu spænsku 1. deildarinnar er liðið gerði 1:1 jafntefli við Rayo Vallecano í 14. umferð deildarinnar.
Liðið situr nú í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Girona, sem á þó leik til góða. Atlético Madrid getur því komist upp að hlið Börsunga með sigri gegn Mallorca í kvöld.
Unai Lopez, miðjumaður Rayo Vallecano, kom heimamönnum yfir á 37. mínútu með stórglæsilegu marki framhjá Pena í marki Barcelona, sem kom inn fyrir Ter Stegen í byrjunarlið Börsunga. Florian Lejeune, varnarmaður Rayo Vallecano, varð svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið net þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma og það urðu lokatölur í dag.