Íslenska knattspyrnukonan Emilía Kiær Ásgeirsdóttir skoraði eina mark Nordsjælland er liðið laut í lægra haldi gegn Bröndby, 2:1, í dönsku úrvalsdeildinni í dag.
Mark Emilíu kom á 10. mínútu leiksins og jafnaði hún metin fyrir Nordsjælland sem fékk á sig mark eftir einungis þrjár mínútur af leiknum.
Sigurmark leiksins kom svo þegar 7 mínútur voru til leiksloka og fór Bröndby upp í fyrsta sæti deildarinnar með 25 stig, upp fyrir Nordsjælland sem situr í öðru sæti deildarinnar með 23 stig.
Kristín Dís Árnadóttir var í byrjunarliði Bröndby og lék allan leikinn í sigrinum.